149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

málefni einkarekinna listaskóla.

578. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt að full ástæða er til að ræða málefni einkarekinna skóla og mun eflaust gefast tækifæri til þess á þingi. Mér finnst gegna sérstöku máli um listnám, það lýtur pínulítið öðrum lögmálum en annað nám og listaskólar þurfa að mörgu leyti á meira aðhaldi og stuðningi að halda en aðrir skólar. Slíkir skólar búa við visst óvissuástand frá ári til árs, eins og hæstv. ráðherra nefndi, og er gott að heyra að ráðherrann hafi skilning á því.

Almennt talað held ég raunar að listnám mætti vera ríkari þáttur í grunnskólanámi hér á landi en nú er, dans, söngur, myndmennt og sagnalist. Ástæða er til að reyna að flétta það betur inn í námið.

Vandamál sjálfstæðra listaskóla eru ólík og margvísleg og bundin hverri stofnun eins og eðlilegt er og kannski ekki ástæða til að fara ofan í saumana á því á þessum vettvangi. En hitt er mikilvægt, að skólarnir nái að þróast og þroskast og njóti til þess bæði aðhalds og viðurkenningar af hálfu stjórnvalda og að skólar og yfirvöld skólanna finni að innan stjórnkerfisins og (Forseti hringir.) ráðuneytis sé skilningur á gildi starfsins sem þar er unnið.