149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

málefni einkarekinna listaskóla.

578. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi listnáms. Ég tel að við höfum gert nokkuð vel í þeim efnum á síðustu áratugum og held að sú menning sem blómstrar á Íslandi sé vitnisburður um þann árangur sem við höfum náð. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að huga enn betur að þeim þáttum, enda sjáum við þegar við ræðum þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir er varða sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna að sérstök áhersla er lögð á — hvað? Jú, í fyrsta lagi sköpun og í öðru lagi tilfinningagreind. Við tökum eftir því þegar við skoðum viðmiðunarstundatöfluna á grunnskólastiginu í 8.–10. bekk að hún uppfyllir ekki alltaf þær valgreinar sem við leggjum áherslu á í aðalnámskrá.

Ég get upplýst hv. þingmann um að við erum að fara sérstaklega yfir þetta, vegna þess að við teljum það afar brýnt. Núna þegar við erum að kynna aðgerðir í menntamálum og við nýliðun í kennarastéttinni erum við í sérstöku sambandi við Listaháskólann um það hvernig megi bæta og fjölga kennurum í listgreinum til þess að við náum að uppfylla viðmiðunarstundatöfluna vegna þess að við höfum mikla trú á því að það sé leiðin fram á við. Þarna er verið að búa til störf sem unga fólkinu þykja spennandi, sem tengjast sköpun, listum og öðru slíku. Við höfum sem samfélag alla burði til þess að gera mjög vel hvað þetta varðar, enda sýnir sagan okkur það.

Virðulegur forseti. Það er brýnt að huga að starfsumhverfi einkarekinna skóla. Þeir búa til ákveðinn fjölbreytileika sem annars væri ekki til staðar. Við þurfum að huga að fjárhagslegri umgjörð þeirra. En það er alveg ljóst að það fjárframlag sem fer til að mynda í Listaháskólann er klárlega samanburðarhæft við önnur norræn ríki.