149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vöktun náttúruvár.

546. mál
[17:25]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Veðurstofa Íslands fylgist með ástandi náttúrunnar með því að vakta veður, vatn og jörð. Um er að ræða samþætta náttúruvárvöktun sem er sennilega einstakt á heimsvísu. Stofnunin er með vakt allan sólarhringinn árið um kring og nýtir sér til þess umfangsmikið net mismunandi mælikerfa við vöktun og greiningu á fyrirboðum náttúruvár, svo sem ofsaveðrum, ofanflóðum, vatnsflóðum, jökulhlaupum, jarðskjálftum og eldgosum.

Vöktun og rannsóknastarf Veðurstofunnar á öllum þessum ólíku eðlisþáttum jarðar er ekki síður mikilvægt í ljósi nýrra áskorana vegna loftslagsbreytinga, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á. Veðurstofa Íslands telur að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á margs konar náttúruvá. Veðurstofan hefur markvisst bætt við og aukið vöktun á lykileldstöðvum landsins sem sýnt hafa aukna virkni á undanförnum árum eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Má nefna Heklu, Kötlu, Bárðarbungu og Grímsvötn.

Nýlega hefur síðan virkni í Öræfajökli aukist og hafa vöktunarkerfi vegna þessa verið styrkt umtalsvert, m.a. vegna þess að fyrri gos í eldstöðinni hafa valdið verulegum umhverfis- og samfélagslegum áhrifum eins og við þekkjum. Með mikilli aukningu ferðamanna á því svæði hefur tjónnæmnin aukist verulega og hættumatsvinna sýnir að viðbragðstími vegna eldvirkni verði aðeins bættur með betri vöktun. Að mati Veðurstofunnar eru vöktunarkerfin á þessum eldfjöllum viðunandi til að unnt sé að gefa út viðvaranir með nægum fyrirvara að því gefnu að fyrirboðar verði með þeim hætti sem eru þekktir í dag.

Veðurstofan hefur lagt fram áætlun um að bæta í þessi vöktunarkerfi, þ.e. jarð-, vatna- og veðursjármælakerfa til framtíðar litið. Markmiðið er að mælakerfin skili inn nægjanlega góðum upplýsingum fyrir náttúruváreftirlitið svo hægt verði að meta stöðuna og fylgja því eftir með útgáfu viðvarana og spáa með ásættanlegum fyrirvara. Áætlunin tekur á þeim gloppum sem nú eru þegar í kerfinu og hefur Veðurstofan gert fjárfestingar- og rekstraráætlun til næstu fimm ára, en í heild nær áætlunin til 15 ára.

Hvað varðar vöktun á óstöðugum fjallshlíðum er slík vöktun til staðar á nokkrum stöðum á landinu. Til dæmis uppgötvaðist nýlega sprunga í berggrunni ofan við Svínafellsjökul í Öræfum. Þar er talið að stórt berghlaup gæti fallið niður á jökulinn og nauðsynlegt er að vakta sprunguna, meta hættu fyrir byggð og ferðamannastaði neðan sporðsins. Í því skyni var sett upp mælakerfi á Svínafellsheiði árið 2018.

Meðal annars vegna nýlegra skriðu- og berghlaupa sem kunna að tengjast loftslagsbreytingum, sem hafa áhrif á sífrera og hörfun jökla, hefur Veðurstofan útbúið minnisblað að minni beiðni og sett fram tillögur sem hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu um eflingu skriðuvöktunar og rannsókna á skriðuhættu á Íslandi. Þar er m.a. gert ráð fyrir að beita fjarkönnun til að kortleggja möguleg berghlaupssvæði landsins, sem myndi svo aftur leiða til sértækrar vöktunar þeirra svæða. Í tillögunum er einnig lagt til að efla vöktun á skyndiflóðum.

En sem fyrr hefur veðurvá langmest áhrif á samfélagið. Veðursjá er mælitæki sem veitir hvað besta vitneskju um ástand lofthjúpsins í rauntíma. Veðursjá getur greint um langa vegu stöðu og útbreiðslu veðurkerfa og agna, eins og ösku, sem og gefið mat á framreiknuðum komutíma þeirra. Þétt net veðursjáa er því ein helsta stoð rauntímavöktunar í hinum vestræna heimi og auðveldar til muna eftirlit með þróun og hreyfingu veðurkerfa.

Á Íslandi eru í dag tvær fastar veðursjár en skilvirkt sjónsvið þeirra nær eingöngu til 30–40% landsins. Utan sjónsviðs þessara veðursjáa eru mikilvægar lífæðar samfélagsins eins og flugvellir, þjóðvegir og dreifikerfi raforku, sem og upptakasvæði snjóflóða á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hið sama á við um hafsvæðið norður og suður af landinu sem varða skuldbindingar landsins gagnvart leit og björgun. Að mínu mati er mikilvægt að fylla í þessar eyður með uppbyggingu landskerfis veðursjáa til vöktunar á veðri og tel ég æskilegt að það gerist einmitt á næstu árum.