149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

vöktun náttúruvár.

546. mál
[17:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans. Minnst var á Veðurstofu Íslands. Þar hefur verið unnið frábært starf. Á því leikur enginn vafi og samvinna við erlenda aðila hefur aukist og skiptir verulega miklu máli í því samstarfi.

Hins vegar hafa komið fram frómar óskir frá bæði Veðurstofu Íslands og vísindasamfélaginu, t.d. jarðvísindamönnum hjá Háskóla Íslands, um aukin framlög í þennan málaflokk. Það þarf að bæta í fastnetið, þetta fjölþætta fastnet sem hæstv. ráðherra minntist á, og þá er stóra spurningin: Hvaðan kemur það fé og hversu háar eru þær upphæðir? Hvar á að vista þær? Þetta er núna vistað að hluta til í Ofanflóðasjóði, t.d. eldfjallarannsóknir, sem er kannski ekki eðlilegt. Það þarf að búa þannig um hnútana að hér sé um miðlæga þjónustu að ræða og þetta sé á einni hendi, að náttúruvá og rannsóknir séu á einni hendi, þeim stýrt alla vega þannig, og að þær séu fjármagnaðar þannig að ekki séu margir sjóðir sem um það fjalla.

Ég tek síðan undir það að efla þarf almannavarnir. Það hefur sýnt sig að þar er eitt og annað sem þarf að skoða mjög vandlega. Það er spurning hvort ekki þurfi að færa stjórnun þeirra mála frá ríkislögreglustjóra til forsætisráðuneytisins. Ég hef rætt það héðan úr pontu. Og svona í blálokin vil ég líka nefna að efla þarf flóðavarnir á landi vegna þess sem ég hef nefnt, ágangur jökulvatna og jökulhlaup og eldgos og annað slíkt, að þær 70 milljónir sem nú eru settar í flóðavarnir duga hvergi til.

Ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna og vona að hún skili einhverju inn í aðgerðir í þessum málum.