149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

svigrúm til launahækkana.

505. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Í umræðunni undanfarið hefur dálítið verið fjallað um svigrúm til launahækkana og sitt sýnist hverjum um hvað það þýðir og hvað það er. Með hliðsjón af því biðst ég afsökunar á fyrstu þremur spurningunum þar sem er dálítil talnaupptalning sem er kannski ekki alveg viðeigandi í munnlegri fyrirspurn, en hún er þó nauðsynleg í þessu samhengi til að fá heildarmyndina af því sem gæti verið svigrúm til launahækkana. Í þeim spyr ég um heildarupphæð allra launagreiðslna á undanförnum fimm árum, landsframleiðslu á undanförnum fimm árum og hver má búast við að verði heildarupphæð launagreiðslna og landsframleiðslu á yfirstandandi ári.

Svo er það fjórða spurningin sem er í raun aðalspurningin og sem ég vonast til að mesta umræðan verði um: Telur ráðherra eðlilegt að horfa til hlutfalls heildarupphæðar launagreiðslna á móti landsframleiðslu þegar skoða á svigrúm til launahækkana? Hvaða önnur viðmið telur ráðherra að mætti helst styðjast við svo að umræða um svigrúm til launahækkana geti byggst á gögnum?

Í þessum fyrirspurnatíma var t.d. fjallað um fjórðu iðnbyltinguna og gagnatrúna, ef það má orða þannig, sem hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrr í dag, en þar kemur sjálfvirknivæðingin inn í sem er ákveðin framleiðniaukning líka. Þá má spyrja hvert slík framleiðniaukning fer eða aðhaldskrafa. Sést hún vel í þessu hlutfalli milli heildarlauna og landsframleiðslu? Hvernig dreifist framleiðniaukningin, hvert fer hún? Fer hún t.d. til neytenda vegna aukinnar samkeppnishæfni eða til þeirra sem fá laun fyrir þau störf sem eru þá eftir eða dreifist framleiðniaukningin á einhvern annan hátt?

Þetta er mjög viðamikil spurning en þetta er upphafspunkturinn í rauninni, að horfa til stóra samhengisins. Sýnir það okkur eitthvað um það svigrúm til launahækkana sem talað er um? Eða þurfum við að skoða nánar þau gögn sem þar liggja undir? Að sjálfsögðu þarf að gera það ef við ætluðum að fjalla um laun einstakra stétta og því um líkt.

Ég hlakka til að eiga orðastað við ráðherra um þetta. Þar sem hún er með Hagstofuna á sínum snærum beini ég spurningunni til hennar en ekki fjármála- og efnahagsráðherra sem ég bjóst upphaflega við að ég myndi eiga samtal við. En þetta er tilraun til að hafa þessa umræðu gagnadrifna.