149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

svigrúm til launahækkana.

505. mál
[17:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Kannski tóku færri þátt í umræðunni af því að þetta er síðasta mál á dagskrá en ég held að þetta sé nokkuð sem við ættum tvímælalaust að horfa meira til. Mér finnst þessar niðurstöður mjög áhugaverðar um hvernig hlutfall launa af vergri landsframleiðslu hefur hækkað síðan 2014. Í stærra samhenginu, alla vega á þessum árum, bendir það til þess, eins og hæstv. forsætisráðherra segir, að skiptingin sé frekar í áttina að launafólki hvað þetta varðar frekar en annað.

Þetta er einmitt mjög flókið þar sem er komið inn á húsnæðisþörf og vaxtastig, sem hefur að vísu verið mjög lágt sögulega séð á Íslandi á undanförnum árum. Það er mjög jákvætt, en á sama tíma hefur húsnæðisverð rokið upp sem aldrei fyrr. Það hefur tvímælalaust mismikil áhrif á ólíka tekjuhópa sem bendir til þess að maður þurfi að horfa nánar á það hvernig dreifingin skiptist á milli tekjuhópa. Við tölum alltaf um meðaltal og hvernig meðaltalið hækkar og hversu fallegt það er, en þegar maður horfir á þessi tvö gildi launa sem oftast er vísað í, miðgildi launa og meðaltal launa, sést að þar á er rosalega mikill munur. Það gefur vísbendingu um ákveðna misskiptingu sem aftur segir okkur að flatar krónutöluhækkanir, t.d. á húsnæði og leigu, hafa meiri áhrif á þá sem eru á lægri launum.

Ég fagna a.m.k. upphafinu að því að fá inn í umræðuna tölur um það hvert svigrúmið er. Það hvernig svigrúmið er er kannski frekar það sem við ættum að spyrja um í framtíðinni.