149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

svigrúm til launahækkana.

505. mál
[17:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og tek undir lokaorð hans, hvernig svigrúmið er, af því að það er auðvitað margt sem hefur áhrif á lífskjör og ráðstöfunartekjur annað en eingöngu launin. Ég nefndi húsnæðismálin. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að við höldum áfram uppbyggingu á félagslegu húsnæði því að við sjáum fylgni milli þess að hinir tekjulægri greiði háa leigu þannig að hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra fer í húsnæði og ekki aðeins hærra hlutfall heldur jafnvel fleiri krónur af því að um er að ræða leigumarkað sem enn þarf verulega á því að halda að hann verði byggður upp með félagslegum hætti.

Ég vil nefna annað dæmi sem m.a. er fjallað um í nýrri skýrslu um lífskjör barna á árunum 2004–2016, fæðingarorlof. Þegar við berum þær niðurstöður saman við þá mynd sem birtist í tekjusögugrunninum sjáum við, þó að það sé erfitt að tala út frá meðaltölum, að við þurfum sérstaklega að horfa til ungs fólks, það hefur fremur setið eftir en þeir sem eldri eru. Einstæðir foreldrar eru þeir sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda og þá eigum við að horfa til þess hvað við getum gert t.d. þegar kemur að niðurgreiðslu tómstunda, skólamáltíðum og lengingu fæðingarorlofs, eins og höfundur þessarar skýrslu vísar til og við höfum auðvitað líka lýst þeirri ætlan okkar að lengja fæðingarorlof. Það er risastórt mál til að brúa umönnunarbil sem er dýrt en hefur líka mikil áhrif á lífskjör ungra barnafjölskyldna, sem upplifa ekki bara fjárhagslegan kostnað heldur líka mikla streitu við að finna rými fyrir börnin sín.

Það er því margt sem stjórnvöld geta gert til að bæta lífskjör. Vaxtastig er lágt í sögulegu samhengi eins og hv. þingmaður nefndi og það er mjög mikilvægt að þær ákvarðanir sem við tökum hér verði ekki til þess að hækka vexti til lengri tíma, því að það er auðvitað líka risastórt lífskjaramál. (Forseti hringir.)

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn, þetta er einmitt eitt af því sem við þurfum að gera meira af, að greina (Forseti hringir.) hvernig við getum bætt lífskjör almennings og séð til þess að það gerist með réttlátum hætti.