149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af loðnunni sem ekki finnst í kringum landið. Þegar ég lít um öxl og hugsa til þess eru ekki liðin svo mörg ár frá því að loðnuvertíð hófst hér löngu fyrir jól. Snemma vetrar var allt iðandi af lífi og hér voru mjölverksmiðjur og mikil gróska allt í kringum landið. Við áttum risastórar stöðvar sem sáu um alveg svakalega mikla og farsæla vinnslu á loðnu.

Nú bregður svo við að við finnum enga loðnu. Það finnst engin loðna. Yfir 1.000 manns sjá fram á að fá ekki störf við loðnuvinnslu. En hvað er það fleira sem við getum litið til? Maður hugsar til sveitarfélaganna sem missa af útsvarstekjum, eins og t.d. fyrir austan, talið er að Fjarðabyggð verði af um 150 millj. kr. útsvarstekjum. Mun ríkisstjórnin t.d. líta til með þeim byggðum sem bíða munu skaða af því ef ekki finnst nein loðna? Í rauninni er ekki mikil bjartsýni hvað það varðar hjá þeim sem betur þekkja til en ég.

Svo við hugsum líka pínulítið um lífríkið okkar í kringum landið, hvað með þorskinn? Hvað með ætið? Hvað með sjófuglinn? Sú staða sem við horfumst í augu við núna hvað varðar fyrirsjáanlegan loðnubrest er grafalvarleg, og virkilega það alvarleg að mér finnst of lítið um hana rætt og of lítið úr henni gert hér á hinu háa Alþingi.