149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frá 2007 hefur lögregluembættum fækkað úr 26 í 15. Það voru lögreglustöðvar í Hafnarfirði, Kópavogi og víða úti um land sem er búið að leggja niður. Því er nú verr og miður. Það er ekki ásættanlegt að fækka lögreglumönnum eins og hefur verið gert. Það hefur stórfækkað í lögreglu undanfarin ár. Það sem er kannski alvarlegast í því er að enn þann dag í dag sé uppi sú staða að einn lögreglumaður geti farið og verði að fara í útkall. Ég tala af reynslu, það er alveg fáránlegt, það er stórhættulegt og það er verið að leika sér að eldinum eða að lífi og limum viðkomandi lögreglumanns. Ef þetta var slæmt áður fyrr er það enn þá hættulegra í dag. Við eigum að sjá til þess og hæstv. ráðherra á að sjá til þess að svoleiðis eigi sér ekki stað, sjá til þess að það séu að lágmarki tveir á bíl og í útköllum.

Síðan eru það kjör lögreglumanna. Þau eru ekki góð og hafa aldrei verið góð, ekki miðað við þá áhættu sem þeir taka, alls ekki miðað við það að þeir leggja undir líf og limi við að gæta öryggis okkar. Hitt er líka að við verðum að sjá til þess að sýnileg löggæsla verður sýnileg aftur. Hún er ekki sýnileg lengur.