149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[16:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir greinargóða og umfangsmikla skýrslu um Schengen-samstarfið. Eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði á undan mér sýnist sitt hverjum en hvort það er hræðsluáróður frá einstaklingum sem eru ekki alveg inn á þessari línu eða eitthvað annað ætla ég að láta liggja á milli hluta.

Það er afskaplega mikils virði fyrir okkur að vera með samstarf við nánustu frændur okkar og nágrannaríki. Það er engum blöðum um það að fletta. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið veitti okkur aðgang að innri markaði Evrópu þar sem við þurftum virkilega á því að halda að geta selt vörur okkar og verið í vöruskiptum, að komast inn á þann markað.

Í raun og veru get ég aðeins sagt að það hafi mikið vatn runnið til sjávar síðan sá samningur var undirritaður og ótrúlega margt breyst í áttina að því að maður hefur á tilfinningunni að þrátt fyrir að vera einungis þriðja stoðin í því Evrópusambandsstarfi séum við næstum komin alveg inn í það. Það er tilfinningin sem maður fær óneitanlega þegar hingað flæða EES-gerðir daginn út og daginn inn og við gerum lítið annað en að stimpla þær.

Þegar kemur að Schengen-samstarfinu er ég því algjörlega sammála að afskaplega mikilvægt sé að við byggjum upp heildstætt samstarf með þjóðunum í kringum okkur á þessum tímum sem við þekkjum öll, ekki síst þegar við lítum til þeirrar hryðjuverkaógnar sem steðjar að heiminum í dag.

Ég ætla að koma pínulítið að einum þætti í Schengen-samstarfinu sem er talinn afskaplega jákvæður. Þá er ég ekki að tala um löggæsluna, sem skiptir náttúrlega miklu máli, heldur í sambandi við að auðvelda för ferðamanna. Við eigum auðvitað öll að vera klár með vegabréfið ef við skyldum vera spurð, ef við skyldum vekja þannig athygli á flugvellinum að eftirlitsaðilar óskuðu eftir því að við gerðum frekari grein fyrir okkur, en ég hef ferðast ansi mikið innan Schengen-svæðisins og hið einkennilega er að það liggur við að maður sé bara á brókinni þegar maður gengur í gegnum hliðið. Ég tek af mér hringinn, fer úr skónum, það liggur við að ég þurfi taka af mér gleraugun, eyrnalokkana og allt saman. Og svo að ég bæti því við til gamans þá skildi ég glæsilega hringinn minn eftir um daginn í dallinum í Keflavík vegna þess að ég einfaldlega gleymdi honum þar. Ég bjóst ekki við að ég yrði klædd úr hringunum líka.

Ég spyr því: Hvað er svona rosalega merkilegt við það þótt vegabréfinu verði bætt við? Hver býður hverjum sem er heim til sín án þess að vita hver það er sem kemur inn um dyrnar? Ég er alls ekki þar. Ég vil bjóða öllum að koma í heimsókn. Við erum með hátt í 3 milljónir ferðamanna á ári og við þá segi ég: Verið þið velkomin og hjálpið okkur endilega að byggja upp frábært hagkerfi. Ekki megum við týna stærstu og öflugustu auðlind okkar. En hamingjan sanna, mér finnst þetta vera orðinn hálfgerður tvískinnungur. Ég þarf meira að segja að sýna skilríki þegar ég flýg til Akureyrar. Jafnvel þótt ég tali íslensku nánast lýtalaust og jafnvel harða norðlensku þá trúir því enginn að ég sé Íslendingur og ég þarf að sýna skilríki.

Við verðum aðeins að lenda hérna. Ef á að halda áfram að strippa okkur eins og alltaf er gert þegar við fljúgum innan Schengen-svæðisins finnst mér allt í lagi að við sýnum vegabréf. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu. Það fyllir mig í raun mig öryggi. Ég fæ þægindatilfinningu gagnvart því.

Ef einstaklingar eru síðan vinsamlega beðnir um vegabréf eða skilríki af einhverjum ástæðum þegar þeir koma hingað eru þeir kannski ekkert með þau. Og hvað þá? Það er skilyrt í samkomulaginu að ef einstaklingur á för sinni innan svæðisins er inntur eftir skilríkjum, löggiltum skilríkjum sem sanna hver hann er, eigi hann að hafa þau til reiðu.

Þegar þeir eru hættir að strippa mig í flugstöðinni þegar ég flýg á milli landa geta þeir svo sem hætt að biðja mig um vegabréfið. En ég ítreka að þetta eru öryggisráðstafanir. Það eru miklar öryggisráðstafanir út af þeirri ógn sem að okkur hefur steðjað. Það er líka stór liður í öryggi að framvísa skilríkjum svo að vitum hverjir það eru sem ganga um borð í vélarnar okkar eða fara frá borði. Mér finnst ekkert athugavert við að vita hverjir sækja okkur heim, sem á í rauninni við um allar aðrar þjóðir líka þótt við höfum ekki lögsögu yfir þeim.

Eflum samstarfið og verum vinir og allt það en í hamingjunnar bænum, til hvers að vera að fá vegabréf sem kostar nánast augun úr fyrir venjulegan Íslending ef við fáum svo ekki að sveifla því hingað og þangað í hvert einasta skipti sem við fljúgum, alveg eins og maður þarf að rífa sig úr að ofan og fara úr skónum og ég veit ekki hvað og hvað?

Þetta voru skilaboðin mín um Schengen.