149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

aukatekjur ríkissjóðs.

633. mál
[17:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Með frumvarpinu er stefnt að því að koma á skýrri gjaldtökuheimild vegna þinglýsinga með rafrænni færslu. Með samþykkt laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 151/2018, hinn 14. desember sl., samþykkti Alþingi þinglýsingar með rafrænni færslu og tekur sú heimild gildi 1. apríl nk. Áður en að gildistöku laganna kemur er talið að lagfæra þurfi orðalag laga um aukatekjur ríkissjóðs þar sem kveðið er á um að fyrir þinglýsingu skjala skuli greiða gjald að fjárhæð 2.500 kr. Í lögunum er sem sagt kveðið á um að greiða skuli gjald en það er að fjárhæð 2.500 kr., til að það sé alveg skýrt að þinglýsingu með rafrænni færslu muni einnig fylgja gjald sömu fjárhæðar, og mikilvægt að það sé skýrt áður en 1. apríl rennur upp.

Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Það er ekki gert ráð fyrir því að þinglýsingum fjölgi eða annað þess háttar við þetta.

Virðulegi forseti. Ég legg þá til að þessu sögðu að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.