149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

104. mál
[18:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn eitt frumvarpið um afnám eða brottnám laga. Æðislegt. Ég er mjög ánægður með það. Ég mun leggja fram frumvarp um brottnám 208 laga, sem ég hlakka mjög til að mæla fyrir og vona að það komist langt. Og von er á öðru frumvarpi um brottnám 26 laga í viðbót. Það er oft mjög áhugavert.

Ég styð það alveg en mig langar til að spyrja hv. þingmann út í ákveðið ferli út af innihaldi þessa frumvarps, tengt kjarnastarfsemi Alþingis við að afgreiða fjárlög og vera með einhvers konar fyrirsjáanleika um þróun skatta. Væri ekki eðlilegra að setja þetta inn í ferli fjármálaáætlunar og fjárlaga, sem sagt beina því á þann veg? Þetta eru ansi stórar upphæðir sem eru þarna á bak við og þá þarf væntanlega eitthvert skipulag til að núlla út áhrifin — eða ekki endilega núlla þau út heldur gera ráð fyrir áhrifunum. Þó að brottfallið væri frábært væri kannski heppilegra ef það gerðist samhliða fjármálaáætlun á einhvern hátt. Ég leita álits þingmanns á því.