149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

104. mál
[19:00]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, það er í sjálfu sér bara eðlilegt að efnahags- og viðskiptanefnd skoði í hvaða fjárhagslega samhengi þessi skref yrðu stigin. Málið var lagt fyrir þingið strax í haust en ekki fékkst mælt fyrir því fyrr en nú.

Að því sögðu felst líka í framlagningu frumvarpsins sú eindregna skoðun flutningsmanna að þetta sé ósanngjarn skattur, hann eigi að fella brott óháð öðru. Bitni það á fjármögnunarþörf eða leiði til þess að afgangur af rekstri ríkissjóðs verði ónægur út frá fjármálaáætlun og fjármálastefnu verði að afla þeirra tekna með öðrum hætti eða skera niður útgjöld á móti, sem væri auðvitað miklu ákjósanlegra í huga þess sem hér stendur. Það er allt of lítið gert af því að sýna aukna eða nægjanlega ráðdeild í rekstri ríkisins.

Ég held að það sé ekkert vandamál. Þetta er 5 milljarða skattur af tekjustofni ríkisins í það heila. Gert er ráð fyrir því að hann sé felldur út í tveimur áföngum. Ég held að það sé tiltölulega auðvelt að bregðast við eða stilla því einhvern veginn inn í ríkisfjármálaáætlun þannig að það valdi engum skakkaföllum.