149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í hádeginu í dag var ég á opnum fundi hjá SÁÁ í Efstaleitinu. Vikulega eru haldnir opnir fundir og þar ber ýmislegt á góma. Í þessu tilviki voru gestir fundarins yfirlæknirinn á Vogi og forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss. Að sjálfsögðu var verið að ræða þann vanda sem ég hef ítrekað talað um hér. Að sjálfsögðu var verið að ræða um það hvar þessar 150 milljónir væru sem starfsfólk á Vogi og hjá SÁÁ stóð í góðri trú að það væri að fá til sín eftir að við ákváðum það hér, fjárlaganefnd fyrir jólin og allur þingheimur, að veita aukna fjármuni í málaflokkinn. Það er eiginlega með ólíkindum og ég er enn að hugsa um hvernig hægt var að hafa þessa stuttu greinargerð, sem var nánast engin, með þessari aukafjárveitingu það loðna og skringilega að það virðist í raun ekki skiljast hverju við vorum að kalla eftir. Hver var hinn raunverulegi vilji löggjafans? Við vorum að reyna að koma til móts við þann hrikalega vanda sem hafði myndast vegna fárveikra fíkla sem vantaði að komast inn á Sjúkrahúsið Vog þar sem biðlistinn var orðinn 600 manns.

Um 2.200 innlagnir eru á Vog á ári. Nú á að fækka þeim niður í 1.800. Nú á að fækka þeim um 400 á þessu ári vegna fjárskorts.

Auðvitað er allt gott sem gert er í því langhlaupi og þeirri löngu vegferð sem liggur í því að þurfa að leita sér hjálpar við fíknisjúkdómum. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það hlýtur að vera byrjunarreiturinn að taka utan um veikasta fólkið þegar það bankar á dyrnar, stendur við þröskuldinn og bíður eftir því að komast inn á Sjúkrahúsið Vog, biður um að komast í meðferð. Eftirmeðferð og það sem þar fylgir — það var í raun ekki vilji löggjafans, að mínu viti, neyslurými sem eru góðra gjalda verð, göngudeildir og annað slíkt. Númer eitt (Forseti hringir.) er að koma sjúklingnum til hjálpar þegar hann er krjúpandi við þröskuldinn og biður um að komast inn á Vog.