149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[15:51]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum. 1. flutningsmaður er Njörður Sigurðsson.

Menningarverðmæti sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt Haag-samningnum eru merkt með verndarmerki samningsins, Bláa skildinum. 133 ríki eru aðilar. Í Evrópu eru öll ríki aðilar að þeim samningi nema Íslendingar.

Þessi sáttmáli, sem er eins og fyrr greinir frá árinu 1954, kom í kjölfar reynslunnar úr seinni heimsstyrjöldinni þar sem ómetanleg menningarverðmæti urðu stríðinu að bráð, voru sprengd í loft upp og eyddust. Þetta er fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem er ætlað að vernda menningararf í vopnuðum átökum og sem leggur áherslu á sameiginlegan menningararf mannkyns.

Samningurinn stýrir framgöngu ríkja sem eiga í stríði og við hernám og er ætlað að tryggja vernd menningarminja, minnisvarða og vörslustofnana, þar á meðal bókasafna, minjasafna og skjalasafna, án tillits til uppruna eða eiganda.

Aðildarríkin skuldbinda sig til að stuðla að vernd menningarverðmæta gagnvart hugsanlegum vopnuðum átökum og að forvarnaaðgerðum, líka á friðartímum, t.d. með því að skrá menningarverðmæti og gera neyðaráætlanir gegn eldi og eyðileggingu mannvirkja og undirbúa flutning hreyfanlegra menningarverðmæta eða stuðla að frekari vernd þeirra og vörslustarfi. Tilnefna ber lögbær yfirvöld til þess að bera ábyrgð á varðveislu menningarverðmæta.

Aðildarríkin skuldbinda sig til að bera virðingu fyrir menningarverðmætum innan eigin landamæra og innan landamæra annarra aðildarríkja með því að stofna þeim menningarverðmætum ekki í hættu í vopnuðum átökum. Huga þarf að því að skrá í alþjóðaskrá menningarverðmæta óhreyfanleg menningarverðmæti til að tryggja vernd þeirra og einnig að því að merkja tilteknar byggingar og minnisvarða með merki sáttmálans.

Aðildarríkin skuldbinda sig líka til þess að stofna sérstakrar einingar innan herafla sem bera ábyrgð á vernd menningarverðmæta, setja upp viðurlög við brotum á sáttmálanum og kynna hann meðal almennings og hagsmunahópa, t.d. sérfræðinga í varðveislu menningarverðmæta, lögreglu og herafla.

Mikilvægi sáttmálans felst m.a. í því að aðildarríki njóta góðs af gagnkvæmum skuldbindingum hans með það að markmiði að vernda menningarverðmæti. Sáttmálinn er sá grundvöllur sem Evrópuþjóðir byggja á við vernd menningarverðmæta á friðartímum.

Aðild Íslands myndi stuðla að betri yfirsýn yfir menningarverðmæti sem eru hér á landi og tryggja vernd þeirra, m.a. vegna aðgerða sem þarf að fara í. Það felur vissulega í sér einhvern kostnað við skráningu menningarverðmæta sem falla undir sáttmálann og skráningu menningarverðmæta sem falla undir vernd vegna neyðaráætlana og viðbúnaðar vegna brottflutnings og hreyfanlegra menningarminja, vernd óhreyfanlegra menningarminja, og svo þarf að auðkenna byggingar og minnisvarða með merki Bláa skjaldarins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þetta mál verði sent til vinnslu í allsherjar- og menntamálanefnd.