149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þá er líklega hægt að segja að 1. flutningsmaður tillögunnar viti nokkuð um hvað hann er að tala. Ég gerði heldur ekki ráð fyrir öðru en að fólk vissi um hvað það væri að fjalla.

Það er alveg rétt að þó að ég hafi sagt að við vonuðumst til þess að hér yrði aldrei stríð, ég held að við séum sammála um það, var Ísland á sínum tíma hernumið og hersett í síðari heimsstyrjöldinni. Nú er enginn her hér á landi og verður vonandi ekki aftur. Þó að þetta snúi fyrst og síðast að vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum snýr síðasta setningin að því sem við búum við, þ.e. jarðskjálftum, eldgosum og flóðum.

Þó að við myndum ekki nema bara hefja þessa vinnu held ég, út frá þeim staðreyndum, að það væri vel til fundið. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað hitt varðar. Auðvitað er alltaf spurning um aðferðina og hvort þetta þurfi að gerast í gegnum svona samninga og hvort við gætum gert þetta með öðrum hætti. Hér var Þjóðskjalasafnið nefnt. Gæti slík stofnun tekið að sér verkið? Verst að 1. flutningsmaður er ekki á þingi núna. Hann hefði getað svarað því sem ég velti upp áðan varðandi það hvort við eigum einhverja heildstæða skráningu, sem ég hef þó efasemdir um.

Ég held að við eigum að skrá menningarverðmæti og við þurfum auðvitað að finna okkur leið til þess. Hvort þessi leið er sú eina veit ég ekki.