149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að ræða við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á dögunum um héraðsskjalasöfnin, varðveislu gagna og annað slíkt. Þá nefndi ég einmitt að Þjóðskjalasafnið sem er okkar höfuðsafn tæki alfarið að sér rafrænu gögnin. Það er mjög dýrt að koma upp þeim búnaði. Því yrði þá frekar vísað þangað og ég held að sem höfuðsafn okkar sé það til þess fallið að sinna ýmsu svona.

Sannarlega yrði það í öðru formi en lagt er til í þessari þingsályktunartillögu. Hún leggur til að við gerumst aðilar að tilteknum samningi. En við höfum meira rætt hvað við getum gert til að skrá þessi menningarverðmæti og hvort hægt sé að gera það með einhverjum öðrum hætti en þessum eina.

Auðvitað er það hægt. En þetta er, eins og hv. þingmaður benti á, þrýstingur á að draga inn fleiri aðila, því að hér er auðvitað líka talað um menningarminjastaði o.s.frv. Það viðkemur, eins og hv. þingmaður benti á, almannavarnaáætlunum sem virkja fleira fólk til að huga að því þegar eitthvað gerist. Við erum flest farin að gera ráð fyrir að það styttist í eldgos. Mér segja fróðir menn að það kraumi undir á ýmsum stöðum. Við vitum auðvitað ekki hvað verður undir á hverjum tíma og hvaða afleiðingar það hefur. Ég held að þetta sé þjóðþrifamál og vona að það fái ágætismeðferð í nefndinni, ekki síst að kannað verði (Forseti hringir.) hvað þessi aðild kostar og hvað hún hefur í för með sér.