149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst þessi tillaga til þingsályktunar, um fullgildingu Haag-samningsins, vera gríðarlega áhugavert mál og tel fyllstu ástæðu til þess að það verði tekið til alvarlegrar skoðunar og hin praktísku mál könnuð, svo sem hver yrði kostnaðurinn við að gerast aðili að samningnum og allt það sem þarf að gera og er mikilvægt þegar kemur að því að gerast aðili að alþjóðasamningum.

Mér finnst umræðan líka mikilvæg um þetta mál sem snýst um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum, umræðan sem það getur leitt af sér um afleiðingar vopnaðra átaka. Sem einlægur friðarsinni hef ég oftast horft til þess hvaða áhrif vopnuð átök hafa á samfélög, rústun og dauða, áhrif á líf fólks í slíkum átökum. Í nútímastríðum eru það alltaf fyrst og fremst almennir borgarar sem þjást í vopnuðum átökum. En menningarverðmætin sem glatast eru partur af lífi og menningu þeirra sem lenda í því að stríðsátök geisa í heimalandi þeirra.

Það er einmitt þess vegna sem mér finnst þetta mál svo áhugavert. Þó svo að það fjalli að hluta til um hvernig vernda megi dauða hluti eru þessir hlutir partur af svo miklu stærra samhengi. Það er svo mikilvægt að hafa það undir. Þess vegna líst mér vel á þessa þingsályktunartillögu þó svo að ég átti mig ekki alveg á því hvaða formlegu vinnu það kallar á að gerast aðili að samningnum.

Ég treysti utanríkismálanefnd sem fær þetta mál til að fara yfir það. Það er fyrst og fremst friðarsinninn í mér sem fagnar málinu og umræðunni sem með því getur skapast. Svo eru auðvitað góðar og mikilvægar hliðarverkanir, ef svo má kalla, að þetta geti óbeint leitt til þess að við skráum betur og komum á betra kerfi í kringum menningarverðmætin okkar hér með tilliti til þess hvað geti gerst ef hér verða náttúruhamfarir, jarðskjálftar, eldgos og flóð, eins og nefnt er í þingsályktunartillögunni.

Þó að Ísland hafi sem betur fer yfirleitt verið langt frá heimsins vígaslóð er það nú samt svo að það er talsvert mikil umferð vígtóla, til að mynda kafbáta, hér í kringum landið okkar og hefur löngum verið þekkt að ef til átaka kemur í okkar heimshluta geti Ísland mjög auðveldlega orðið skotmark, m.a. vegna veru okkar í NATO. Þó að hér sé ekki herstöð lengur, eins og var áður fyrr, hefur herlið NATO engu að síður fasta viðveru á Keflavíkurflugvelli sem gerir það að verkum að við getum dregist mjög inn í átök ef þau brjótast út í þessum heimshluta. Þar með er auðvitað almenningur hér á Íslandi í hættu, svo og menningarverðmæti okkar. Þetta snýr ekki bara, eins og manni hættir til að hugsa, um hinn fjarlæga heim þegar kemur að stríðsátökum heldur getur þetta haft beina þýðingu fyrir okkur hér.

Ég vonast til þess að þetta mál sem hér kemur fram fái umræðu á Alþingi sem og meðferð í utanríkismálanefnd og að það leiði til umræðu í samfélaginu um hvað hernaðarátök þýða fyrir fólk og fyrir samfélög og hversu hræðileg þau eru. Ég vona að það verði aukaafurð umræðunnar um það að Ísland fullgildi Haag-samninginn um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.