149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:15]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð í þessu andsvari önnur en þau að ég þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg um þessa tillögu, sérlega gott innlegg. Það minnir okkur á að þegar til svona átaka kemur, og þegar ósköpin dynja yfir, hugsum við náttúrlega fyrst um að bjarga mannslífum en svo förum við að huga að menningarverðmætunum vegna þess að menningarverðmætin snúast um innviði samfélaganna. Þetta eru meira að segja stundum innviðir sem ekki sjást heldur varða sögu, menningu, tungu og myndmenntir sem jafnvel hafa lifað með þjóðunum um aldir.

Þetta mál kallast með vissum hætti á við mál sem ég veit að hv. þingmaður mun flytja hér á eftir og snýst um Palestínu, palestínsku þjóðina og sambýli palestínsku þjóðarinnar í Ísrael þar sem við höfum einmitt horft upp á markvissa eyðileggingu innviða einnar þjóðar.

Við erum vissulega lánsöm hér á landi að árásir hafa ekki verið gerðar á okkur. Við væntum þess og vonum að við munum áfram búa við frið hér á Íslandi en allur er varinn góður. Ég held að það sé rétt að taka þátt í því með þjóðum heims að (Forseti hringir.) huga að því að vernda menningarverðmæti gegn slíkum manngerðum hryllingi sem stríð eru.