149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að beina málinu á kurteislegan og elskulegan hátt í réttan farveg. Að sjálfsögðu á málið að fara til utanríkismálanefndar en ekki til allsherjar- og menntamálanefndar, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, og þakka ég hv. þingmanni fyrir það.

Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að þetta snýst ekki síst um að binda hendur þeirra sem standa í stríði. Það er mjög mikilvægt að þjóðir heims geri sem mest af því að eiga í samtali og samvinnu um það fyrirkomulag sem þær hafa á sínum samskiptum, þar á meðal samskiptum sem fara yfir einhver mörk eins og stríð jafnan eru. Þá er mikilvægt að slíkt fari þó fram eftir einhverjum lágmarksreglum um vernd, bæði fólks og menningarverðmæta.

En eins og við vitum, og hv. þingmaður vék að áðan, bitna stríð, og alveg sérstaklega nú á dögum, á almennum borgurum og eru beinlínis háð til að drepa sem flesta almenna borgara frekar en að hermenn séu að drepa hver annan. Í öðru lagi er stefnt að því að ná sem allra mestri eyðileggingu í einhverju svona hugmyndalegu stríði gegn menningu sem viðkomandi er ekki að skapi. Okkur kann að þykja þetta allt saman (Forseti hringir.) fjarlægur möguleiki, en ég ítreka það að allur er varinn góður. Það er full ástæða til að fullgilda þennan samning.