149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur nýlega ýtt úr vör áfengisvarnaátaki til að reyna að minnka skaðsemi neyslunnar. Átakið miðar að því alþjóðlega markmiði að áfengisneysla fari niður um 10% á heimsvísu fyrir árið 2025. Hefur stofnunin gefið út leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvað eigi að gera til að reyna að vinna að þeim markmiðum.

Það er ekki verið að tala um að banna áfengisneyslu heldur að draga úr henni. Þar er í fyrsta lagi að auka ekki aðgengi að áfengi heldur reyna að draga úr því og takmarka áfengisauglýsingar, kostun og kynningu á áfengi og svo er það verðlagning og skattlagning eins og hv. þingmaður talaði um áðan.

Heldur þingmaðurinn því fram að frumvarpið (Forseti hringir.) sem hann vill að Alþingi samþykki muni ekki auka aðgengi að áfengi? Ef hann telur að svo muni vera, værum við þá ekki með samþykkt þess að ganga gegn markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar?