149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar horft er til umfangs þess aðgengis sem þegar er fyrir hendi, eins og ég sagði fyrr í þessari umræðu, þegar við erum með áfengisverslanir í öllum helstu verslunarkjörnum landsins, þegar áfengisverslanir, en þær eru 50 talsins á landsvísu, eru opnar fram eftir kvöldi, sumar hverjar, á laugardögum og eru í öllum helstu verslunarmiðstöðvum t.d. á höfuðborgarsvæðinu, held ég að við séum býsna nærri því að vera með það sem mætti kalla fullt aðgengi að áfengi, fyrir utan síðan ótal vínveitingastaði sem hér eru líka starfræktir. Ég held að það muni ekki skipta sköpum í baráttu okkar fyrir hóflegri áfengisneyslu að einkaaðilum sé heimilt að opna verslanir til viðbótar. Það er ekki vandamálið að nálgast áfengi ef mann langar í það á annað borð.