149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, aðgengi hefur aukist gríðarlega mikið. Það er einmitt þess vegna sem neysla í lítrum talið hefur 2,5-faldast frá 1989 og það er líka þess vegna sem neysla á hreinum vínanda á mann hefur aukist um rúma 3 lítra frá árinu 1989. Hv. þingmaður talar um viðskiptafrelsi. Verslunum ÁTVR hefur fjölgað mest í hinum dreifðu byggðum. Þar hafa líka verið lögð niður pósthús í staðinn sem voru áfengisdreifingaraðilar áður. Út af fyrir sig hefur þeim stöðum ekki fjölgað svo mikið. Vill hv. þingmaður koma í veg fyrir að vínveitingastöðum fjölgi af því að honum verður tíðrætt um viðskiptafrelsi? Mesta aukningin á sölu áfengis á undanförnum 25 árum er vegna fjölgunar vínveitingastaða. Ég spyr hv. þingmann: Vill hann að við setjum frekari skorður við fjölgun vínveitingastaða? Er þetta ekki smáþversögn?