149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef við tökum þessa aðgengisumræðu aðeins lengra skiptir sennilega nokkru máli hvort um er að ræða útsölustaði með áfengi eða pósthúsið. Það gat nú eyðilagt heilu helgarnar fyrir mönnum í þá tíð þegar þeir fengu ekki póstsendinguna sína en nú geta þeir bara gengið út í búð. Nei, ég er ekki að mælast til þess að við grípum til takmarkana á fjölgun vínveitingastaða. Ég held þvert á móti að við eigum að treysta fólki til að hugsa um eigin heilsu. Við eigum að fræða það um skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu. Í þessu samhengi má alveg benda á annan skaðvald sem er ekkert síður í umræðunni út frá lýðheilsusjónarmiði í dag, þ.e. sykur. Við erum ekki að taka upp ríkiseinokun með sykur. Við erum einfaldlega að beina fræðslu um heilbrigt líferni og heilbrigt mataræði til fólks til að sporna við þeirri þróun sem þar er og við getum alveg eins gert það þegar kemur að áfengi.