149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki um nokkurn mann sem hefur orðið fullur af sykuráti. Mig langar aðeins að koma inn á lýðheilsuendann á þessu máli. Það er nokkuð víst að ef þetta frumvarp verður að lögum munum við þróast í þá átt að neysla á hreinum vínanda á mann á ári verði í kringum 11 lítrar sem er svipað og í Þýskalandi, Englandi og Danmörku þar sem fólk deyr að meðaltali fjórum til fimm árum yngra en við Íslendingar.

Nú er það næsta víst að aukning frá 7 lítrum upp í 11 mun hafa í för með sér fjölgun krabbameinstilfella, hjarta- og æðasjúkdóma auk aukinnar áfengissýki. Spurningin er: Hvað hyggjast hv. þingmaður og meðflutningsmenn hans fyrir til að mæta þeim auðsjáanlegu lýðheilsuáhrifum sem þetta frumvarp mun hafa? Hvað hyggjast þeir fyrir til að takmarka eða koma í veg fyrir það sem ég sagði áðan?