149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Einhverju sinni stóð ég fyrir utan þetta hús, gott ef það var ekki fyrir tíu árum síðan, og hló hrossahlátri yfir fólki sem stóð hér inni og var að ræða brennivín í búðir. Mér þótti svo dæmigert að í miðri búsáhaldabyltingu skyldi þing koma saman og það fyrsta sem skyldi ræða væri hvort selja mætti áfengi í stórmörkuðum.

Það eru tíu ár síðan þetta var og hér er komið fram frumvarp sem er allt öðruvísi en frumvarpið sem þá var rætt því að þá var verið að tala um að skutla áfenginu inn í Bónus við hliðina á bleiunum og seríósinu til að það væri örugglega í alfaraleið þegar hinn almenni borgari ætlaði að kaupa sér í matinn.

Að þessu sinni sýnist mér frumvarpið snúa að tvennu, annars vegar að því að afnema einkasöluleyfi ÁTVR á áfengi og hins vegar að auglýsingum. Þegar kemur að einkasöluleyfi ÁTVR á áfengum drykkjum er það auðvitað algjör vitleysa því að ef mann langar að verða sér úti um áfengi getur maður nánast gengið inn í hvaða bakarí sem er sem ákveður að hita brauðið örlítið, setja pínulítið meira á milli brauðsneiðanna, hafa örlítið salat til hliðar og jafnvel fröllur. Þar getur viðkomandi sótt um leyfi til að fá að selja bjór með brauðinu. Aðgengi að áfengum drykkjum á Íslandi er því býsna gott. Hægt er að kaupa áfenga drykki nánast hvar sem er. Núna er meira að segja hægt að kaupa áfenga drykki í þeirri ágætu sjoppu í Bolungarvík sem áður hét Geirasjoppa og heitir núna Víkurskáli. Þetta var áður bensínstöð þar sem maður gat keypt sér ís en núna getur maður keypt sér bæði vín og bjór af því að búið er að þróa matseðilinn aðeins og bæta fetaosti út á salatið.

Það er kannski þetta sem gerir það að verkum að ég get ekki verið andsnúin þessu máli, mér þykir tvískinnungurinn í umræðunni svo mikill. Mér þykir það tvískinnungur þegar við ákveðum að aðeins sé hægt að fara í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem núna heitir Vínbúðin, ef maður ætlar að kaupa sjálfur flöskuna á því verði sem þar er en þurfi að fara á aðra staði þar sem álagningin er margföld ef maður vill ekki leggja leið sína í Vínbúðina.

Málið snýst ekki um aðgengi að mínu viti. Aðgengið að áfengi fyrir þann sem langar í það er býsna gott á öllum tímum sólarhrings, nánast hvar sem er. Þetta snýst um að búa til sérverslanir utan um áfengi sem hugsanlega einblína á ákveðnar tegundir, einhverja áferð, héruð, lönd, hvað sem er.

Það sem mig langar líka að ræða eru þeir einyrkjar sem eru farnir að brugga bjór víða um land og geta í raun illa komið sinni íslensku framleiðslu á framfæri. Mér finnst það líka skipta máli. Þetta er orðin ótrúlega skemmtileg búbót við landbúnað, skulum við segja, beint frá býli. Það er ótrúlega skemmtilegt að heimsækja litlar framleiðslur sem búa til eina til tvær tegundir. Svo að ég fari aftur vestur á firði var nýlega opnað pínulítið brugghús á Ísafirði, sem er ótrúlega skemmtilegt. Þetta er fjölskylda sem kemur saman og límir miða á flöskurnar en má ekki selja þær af því að það er einungis Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem má gera það.

Ég myndi frekar vilja að við hugsuðum aðeins út í það að gefa íslenskum framleiðendum tækifæri á að koma vörum sínum á framfæri, þeim sem hafa áhuga á að selja vöruna og gera það mögulega á annan hátt en Vínbúðin. Þótt hún hafi vissulega verið til fyrirmyndar er ákveðin takmörkun þar. Fólk gæti viljað hafa verslun með skemmtilegum bjórtegundum, jafnvel bara innlendri framleiðslu o.s.frv. Slíkt þekkir maður frá útlöndum þar sem hægt er að fara í litlar búðir sem selja einungis bjór eða einungis léttvín frá þessu og hinu landinu.

Hitt sem varðar tvískinnunginn er auglýsingarnar. Í dag eru léttölsauglýsingar úti um allt. Fram kemur með pínulitlum stöfum í horninu að um sé að ræða léttöl. Slíkar auglýsingar mega vera úti um allt.

Í þessu frumvarpi gladdist ég mjög við að sjá settar mjög skýrar reglur um auglýsingar. Þær skýru reglur ná líka yfir léttöl og aðra vöru með sama heiti og sambærileg áfeng vara innan þeirra marka sem kveðið er á um í 3. mgr. 16. gr. Ef maður er með eitthvað sem heitir Böl er því ekki hægt að skrifa og auglýsa Böl – léttöl hvar sem er bara af því að viðkomandi hefur léttöl skrifað örsmáum stöfum í horninu eða lætur einhvern frægan leikara hvísla léttöl yfir auglýsinguna.

Það er auðvitað ákveðinn óheiðarleiki — eða auglýsingasnilld — að koma hinum rammáfenga drykk Böli á framfæri með auglýsingum en hvísla svo léttöl í kjölfarið.

Af því að við erum ekki með neinar alvörureglur um auglýsingar finnst mér gott að setja inn þetta ákvæði hér og setja það skilyrði með öllum auglýsingum, hvort sem um er að ræða léttölsauglýsingarnar eða áfengisauglýsingarnar, að viðvörun um að áfengisneysla valdi heilsutjóni sé á þeim. Þar liggur snilldin. Þá eru skilaboðin orðin alveg skýr.

Þetta sér maður víða, t.d. í Svíþjóð. Þar má auglýsa en taka verður fram að áfengisneysla valdi heilsutjóni því að það gerir hún svo sannarlega. Við vitum að áfengisneysla í of miklu magni veldur heilsutjóni.

Ef við gætum bara látið þetta standa eftir af þessu ágæta frumvarpi yrði ég frekar ánægð. Ég held að fræðslan um hvað áfengi getur verið mikið böl og hvað það hefur valdið miklu tjóni hjá mörgum fjölskyldum sé mjög af hinu góða. Ég veit það.

Þegar kemur að aðgengi og unglingum langar mig að benda á að ég held að aðgengi að áfengi hafi sjaldan verið jafn mikið og núna. Unglingadrykkja hefur hins vegar minnkað umtalsvert. Við ferðumst meira að segja um heiminn og kynnum Reykjavíkurmódelið stolt. Við stöndum okkur svo vel í að hafa minnkað unglingadrykkju að frægt er orðið um allan heim. En á sama tíma geta unglingar farið í sjoppurnar sem setja fetaostinn út á salatið. Aðgengið er alveg jafn mikið. Þeir geta pantað sér alls konar bíla, alls konar skutlara, keypt sér alls konar áfengi hér og þar. Það er alveg hægt. Það er auðveldara núna en þegar maður þurfti að mæta uppstrílaður við borðið á Lindargötu og þykjast vera orðinn 20 ára.

Ég held að mun meira aðgengi sé að áfengi í dag en áður, bæði á veitingahúsum og annars staðar. Ég held að það sé auðveldara með þessum einföldu ráðum. En unga fólkið er greinilega skynsamara. Ég er því ekki viss um að við þurfum að óttast að það muni hlaupa upp til handa og fóta og fara frekar í sérverslunina en í vínbúðina, því að vínbúð er auðvitað sérverslun, ríkissérverslun.

Það er eitt og annað í frumvarpinu sem ég fagna og er ánægð með. Ég held að við höfum gott af því að ræða það á þingi.

En í lokin, af því að tíminn er að hlaupa frá mér, vil ég gjarnan eyða smátíma í að ræða 26. gr. laga sem á að verða, breytingu á áfengislögum, sem er 17. gr. frumvarpsins. Þar eru refsiákvæði, viðurlög við brotum, sem mér finnst að nefndin sem fær málið til umfjöllunar eigi að fara sérstaklega yfir. Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum — og svo kemur langur listi yfir þau atriði sem varða við sektir eða fangelsi.

Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni um þetta tiltekna ákvæði og hvaðan það er komið.