149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvarið og svara lokaspurningunni játandi. Ég er mjög fylgjandi því að við förum að lögum. Einmitt þess vegna er ég mjög fylgjandi því að ef við ætlum að reyna að gera þetta þannig að við förum að lögum, því að nú flæða erlendar auglýsingar líka yfir okkur, gerum við það með afgerandi hætti. Sá sem ætlar að auglýsa skal líka auglýsa að áfengi sé skaðlegt. Það er það sem ég var að benda á. Jafnvel þó að ekkert standi eftir af þessu frumvarpi eftir að það hefur farið í gegnum nefndina, ef það kemst þá einhvern tímann þangað, væri þetta þó skref í rétta átt. Auglýsingarnar eru þegar til staðar. Það veit ég að hv. þingmaður hefur orðið var við. Auglýsingarnar eru svo sannarlega til staðar fyrir þá sem horfa á íþróttakappleiki um helgar í sjónvarpinu eða lesa tímarit og blöð og hvar sem er, jafnvel í útvarpi, margsinnis í útvarpi. Það eru varla haldnir þeir tónleikar á Íslandi að ekki sé hvíslað um drykkinn Böl og „léttöl“ á eftir. Það er bara þannig.

Við skulum þá frekar bara hafa þetta þannig að það séu skýrar reglur. Sá sem ætlar að auglýsa áfengan drykk skal segja það í leiðinni að áfengi sé skaðlegt. Ég held að það muni hafa meiri áhrif en nokkuð annað í þessu.