149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, við erum búin að gera þá tilraun að fjölga útsölustöðum ÁTVR, fjölga Vínbúðum víða um land. Við erum líka búin að gera þá tilraun á Íslandi að leyfa sölu bjórs og það hefur aukið áfengisneyslu mikið.

En ég veit ekki betur en að með leyfi á sölu á bjór á Íslandi hafi áfengisneysla líka breyst töluvert og sé í rauninni ekki eins öfgafull og hún var. Þannig hefur umgengni okkar við þann áfenga drykk breyst. Minna er um stórkostlega ölvun og meira um jafna maríneringu, eins og ég kýs að kalla það.

Viljum við banna áfenga drykki? Ég veit það ekki. Ég er ekkert sérstaklega gefin fyrir slíkt. En eins og ég hef komið inn á áður breytir það í sjálfu sér engu fyrir mig hvort ég fer í Vínbúðina til að kaupa bjórinn eða í sérverslunina í næstu götu. Þetta er ekki slíkt aðgengismál í mínum huga. Hægt er að kaupa sér bjórinn hvar sem er, jafnvel í bakaríinu eins og ég kom inn á áðan. (Forseti hringir.) Sé maður þyrstur getur hann fengið bjórinn hvar sem er.