149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:35]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er vantrú á einkaframtakið. En það er alltaf verið að tala um að fólk nái sér í vín, að þeir sem vilja nái sér í vín, það þýði ekkert að takmarka aðgengi alkóhólista að víni, þeir finni alltaf leið. En hvað með alla hina sem eru ekki svona sólgnir í vín? Myndi minna framboð takmarka áhuga þeirra? Myndi hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kannski drekka minna ef það væri erfiðara fyrir hann að ná í vín, ef hann er svona mikill hófsmaður á vín? Ég er alveg sammála því að það er hræðilegt að búa við áfengissýki en við getum auðvitað ekki miðað lögin við það.

Ég segi enn og aftur að mér finnst tilgangurinn með þessu sá að einhver eigi að græða á þessu og ég vil bara fá að vita hver það er.