149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

staðan á húsnæðismarkaði.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú hefur erfið staða fólks á húsnæðismarkaði verið áberandi í umræðunni, ekki síst í tengslum við kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur reyndar komið fram með húsnæðistillögur sem mætt hafa nokkurri jákvæðni og ég tel rétt skref, enda í megindráttum samhljóða tillögum okkar Samfylkingarfólks frá því í haust. Það vantar að vísu úrbætur fyrir fyrstu kaupendur og ég bíð spenntur eftir þeim.

Framleiðni í byggingariðnaði er lægri hér en í nágrannalöndum okkar og vextir miklu hærri. Þetta er eitruð blanda sem augljóslega leiðir til miklu hærra byggingarverðs en þyrfti að vera. Þetta hefur leitt til þess að á sama tíma og fjölbýlishúsið sem búsetuform hefur þróast og batnað mikið í nágrannalöndum okkar hefur það gengið miklu hægar á Íslandi og í sumum tilfellum beinlínis bitnað á gæðum. Með aukinni nýsköpun og lagfæringum á byggingarreglugerð gætum við vissulega aukið framleiðni.

Hvaða ráð sér hæstv. fjármálaráðherra fyrir sér þegar kemur að því að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífsins og ekki síst almennings í landinu um lægri vexti og afnám verðtryggingar?

Samfylkingin hefur talað fyrir lausn sem fæli í sér upptöku evru og það myndi stórlækka fjármagnskostnað. Það gerði hæstv. fjármálaráðherra reyndar fyrir rúmum tíu árum en hefur skipt um skoðun og ég ber virðingu fyrir því.

Ég spyr: Telur hæstv. fjármálaráðherra að vextir geti orðið jafn lágir og eru annars staðar á Norðurlöndunum og sér hann fyrir sér einhverja möguleika á því að losna við verðtryggingu með íslenskri krónu?