149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

staðan á húsnæðismarkaði.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er sett á dagskrá mikilvægt mál sem er húsnæðismarkaðurinn á Íslandi og leiðir til að lækka þröskuldinn inn á húsnæðismarkaðinn. Ég tek undir með hv. þingmanni að hægt er að gera ýmislegt til að draga úr kostnaði við nýbyggingar, eins og við höfum reyndar verið að gera með breytingum á byggingarreglugerð, sem er á valdsviði umhverfisráðuneytisins, eða var það til skamms tíma, en við höfum líka verið að gera aðra hluti eins og t.d. að fella niður alla tolla og vörugjöld, sem hefur haft áhrif á byggingarkostnað. Stimpilgjald hefur verið lækkað um helming fyrir fyrstu íbúðarkaupendur og við getum haldið svona áfram. Þetta hefur skipt máli.

Það er ekki hægt að taka umræðu um húsnæðisverð á Íslandi án þess að benda á hversu hátt hlutfall af heildarbyggingarkostnaði nýrra bygginga lóðaverðið er. Það er mikil breyting frá því sem áður var þegar fólk fékk jafnvel úthlutað lóðum án kostnaðar, án þess að greiða fyrir. En nú er þetta orðinn sjálfstæður tekjustofn hjá sveitarfélögunum og það er auðvitað mjög mikið vandamál þegar skapast skortur á sama tíma og við sjáum verðið rjúka upp, eins og menn þekkja. Hér í Reykjavík er t.d. talað um að rétturinn til að byggja eina íbúð geti gengið kaupum og sölum á bilinu 6–8, jafnvel 10 millj. kr., bara rétturinn til að fá að byggja. Það sýnir hvers konar ástand hefur skapast.

Vextir hafa lækkað mjög mikið. Við höfum aldrei í sögunni haft lægri raunvexti á húsnæðislánum en einmitt í dag. Það er niðurstaða eftir góðan árangur í opinberum fjármálum á undanförnum árum.

Spurt er: Geta vextir verið lægri á Íslandi en í öðrum löndum? Já, ég get nefnt dæmi. Ef það væri mikil verðbólga og mikill hagvöxtur í öðrum löndum en engin verðbólga og samdráttur á Íslandi get ég lofað hv. þingmanni að vextirnir væru lægri hér. En þegar það er mikill hagvöxtur á Íslandi og enginn í (Forseti hringir.) Evrópusambandsríkjunum eru allar líkur á því að vextir séu hærri á Íslandi en þar.