149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

staðan á húsnæðismarkaði.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé a.m.k. vísir að ákveðinni hugsanavillu þegar spurt er: Getum við ekki fengið vexti einhvers annars lands? Það verður að gefa sér ákveðnar forsendur með því. Við fáum ekki sömu vexti og í ríkjum í löndum þar sem enginn hagvöxtur er. Ef við færum til Spánar og sæjum atvinnuleysið þar, tala nú ekki um hjá ungu fólki, spyr ég: Viljum við vextina sem verið er að nota þar?

Það er ekki hægt að biðja um vexti úr hagkerfum sem eru í allt annarri stöðu en við Íslendingar. En ef verið er að spyrja hvort vextir geti við sömu aðstæður á Íslandi nálgast það sem þeir eru annars staðar held ég að svarið við því sé einfaldlega: Já, það er algjörlega í okkar höndum að skapa þau skilyrði fyrir vaxtalækkun sem við erum að kalla eftir. Hið opinbera hefur verið að gera það. Sveitarfélögin hafa verið að gera það og Seðlabankinn hefur lagt sitt af mörkum með því að beita þeim tólum sem hann býr yfir.

En spurningin er hins vegar sú hvort vinnumarkaðurinn er reiðubúinn (Forseti hringir.) til þess að taka höndum saman við aðra þá sem geta hér haft áhrif til þess að ná árangri og þeim markmiðum sem að er stefnt fyrir alla þjóðina. Það er spurningin (Forseti hringir.) vegna þess að enginn einn af þessum aðilum getur gert þetta óstuddur af hinum.