149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

eftiráleiðréttingar launa.

[10:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Verkföllin byrja á morgun svo við skulum líta á það hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið á kjaramálum síðustu ár.

Í umræðu um verkföll heilbrigðisstarfsfólks 2015 sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Það geta ekki allir endalaust fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum.“

Ári síðar, 2016, lagði fjármálaráðherra síðan til að viðmiðunarárið á eigin launum væri 2006, þ.e. tíu ár aftur tímann. Það var sem sagt alveg hægt að leiðrétta launin hans tíu ár aftur í tímann en ekki annarra.

Í dag krefst fjármálaráðherra þess að launahækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja séu dregnar til baka og það er gott, en fyrir tæpu ári greiddi hann atkvæði á Alþingi gegn tillögu Pírata um að launahækkanir þingmanna og ráðherra væru dregnar til baka til að fylgja almennri launaþróun, til að fylgja almenningi frá 2013, sem launafólk sem núna er að fara í verkfall hefur þurft að fylgja.

Ég fann lýsingu á þess konar hegðun í orðabók á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lýsingin er svona, með leyfi forseta:

„Það að þykjast vera betri eða göfugri en maður í raun er, t.d. með því að fordæma eitthvað í fari annars sem maður gerir sjálfur.“

Þetta er lýsing á orðinu hræsni. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum finnst hann vera hræsnari fyrir að krefjast þess að launahækkanir annarra séu dregnar til baka eftir að hafa greitt atkvæði gegn því að hans eigin laun væru leiðrétt í samræmi við launaþróun launafólks og fyrir að segja við heilbrigðisstarfsfólk í verkföllum að ekki væri hægt að leiðrétta laun tíu ár aftur í tímann en leggja svo til ári síðar að hans eigin laun yrðu leiðrétt tíu ár aftur í tímann.