149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

eftiráleiðréttingar launa.

[10:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég átti einmitt samtal við hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, um þetta. Hún segir: Jú, við fórum umfram almenna launaþróun, jafnvel þó að miðað væri við 2006. Allir formenn, m.a. Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, lögðu í forsætisnefnd fram tillögu um að kjörin yrðu lækkuð til að taka obbann af þessari hækkun. Það var bara ekki nóg, þetta var miðað við 2006. Þess vegna er ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því að hann segir ári áður þegar hann er að setja lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna — ég er bara með þetta beint úr þinginu, ég mun setja þessa umræðu okkar upp í blogg með öllum linkum. Það er alveg ljóst að hæstv. fjármálaráðherra segir: Það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Ári síðar leggur hann til að gerðar séu leiðréttingar tíu ár aftur í tímann þegar kemur að kjörunum. (Gripið fram í.) Jú, hæstv. fjármálaráðherra, þegar kemur að kjörunum. Þau voru lækkuð, við vorum að tala um þetta hérna í gær. Þessi umræða er öll til og þessi gögn eru öll til.

Akstursgreiðslurnar voru lækkaðar úr 90.000 kr. niður í 40.000 og starfskostnaður var lækkaður líka. Þetta var gert til að taka obbann af hækkuninni og þá var viðmiðunarárið 2006 (Forseti hringir.) þannig að það eru tíu ár. Það var hæstv. fjármálaráðherra ánægður með. Þegar við lögðum til að 2013 væri notað sem viðmið vildi hann það ekki. Þess vegna spyr ég af því að það er ekkert annað orð sem ég finn.