149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

eftiráleiðréttingar launa.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að gera upp við sig hvað hann ætlar að tala um í þessari umræðu. Ætlar hann að tala um þau kjör þingmanna sem forsætisnefnd fjallar um, sem eru einkum starfstengdar greiðslur og endurgreiðslur á útlögðum kostnaði og aðrir slíkir þættir, eða ætlar hann að tala um heildarkjörin sem forsætisnefnd Alþingis er ekkert að fjalla um?

Þegar við spyrjum um hvernig kjörin hafa heilt yfir þróast held ég að langbesta gagnið til að byggja umræðuna á sé skýrslan sem var unnin í samstarfi við aðila vinnumarkaðar og kom út snemma á síðasta ári. Þar kemur fram að kjararáðshóparnir hafi að meðaltali, fái þeir enga hækkun það árið — (Gripið fram í: Þetta er …) sé sama þróun hjá þeim frá árinu 2013 og hjá almenna markaðnum og opinberum starfsmönnum.

Ég skal taka það fram að ákveðinn fyrirvari var gerður við þessa niðurstöðu af hálfu ASÍ en ég get bara ekki setið undir því að ég sem ráðherra eða aðrir þingmenn séum eitthvað að ráðskast með laun þingmanna vegna þess að það höfum við ekki verið að gera. (Gripið fram í.) Við erum ekki ákvörðunaraðili um eigin kjör. Við höfum útvistað því verkefni til kjararáðs og skapað lagagrundvöll fyrir það.

Nú liggur frumvarp (Forseti hringir.) fyrir þinginu um að byggja á niðurstöðunum frá 2016 og láta síðan framhaldið ráðast af meðalþróun opinberra starfsmanna.