149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra tilkynnti í viðtali í vikunni að framlagning þriðja orkupakkans á Alþingi myndi frestast um óákveðinn tíma. Í samtali við fjölmiðla sagði ráðherra að skoða þyrfti málið gaumgæfilega og að hann myndi taka þann tíma sem til þyrfti.

Þetta mál er að verða hið vandræðalegasta fyrir ráðherrann og raunar ríkisstjórnin alla. Alþingi hefur haft málefni þriðja orkupakkans til umfjöllunar allt frá árinu 2010 þegar þinginu bárust fyrstu minnisblöð um málið og fyrirhugaða innleiðingu. Efnisleg umfjöllun í nefndum átti sér stað á árunum 2014–2016 í aðdraganda ákvörðunar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Fjölmargir þeirra þingmanna sem nú hafa lýst miklum efasemdum um málið sátu þá á þingi og höfðu ekki uppi hávær mótmæli í opinberri umræðu, í það minnsta ekki þá.

Orkupakkinn var síðan tekinn upp í EES-samninginn í maí 2017, undir forystu núverandi utanríkisráðherra án fyrirvara. Enn og aftur var lítil sem engin opinber umræða um áform þeirrar ríkisstjórnar né fyrri ríkisstjórna um innleiðingu. Það virðist hins vegar sem umræðan hér hafi fyrst hafist þegar Miðflokkurinn norski hafði uppi hávær andmæli við innleiðingu og/eða meðferð norska Stórþingsins um málið sl. vor. Norðmenn kláruðu hins vegar málið fumlaust og samþykktu fyrir rétt um ári síðan en málið virðist ríkisstjórninni hér hins vegar algjörlega ofviða. Málið var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi en kom ekki fram eins og vel er þekkt og síðan var það og er á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi þingi og átti að koma fram í lok febrúar en ráðherra tilkynnti í fjölmiðlum að það myndi ekki gerast.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað skýrir þessar endalausu tafir? Má skilja áherslur ráðherra nú á vandaðan undirbúning svo að málið hafi verið vanbúið af hálfu ráðuneytisins til þessa því að ekki hefur þriðji orkupakkinn breyst í það minnsta? (Forseti hringir.) Nýtur málið ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar?