149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[11:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni bæði fyrir spurninguna og yfir höfuð fyrir að spyrja mig. Þingmenn Viðreisnar hafa alla jafna verið að spyrja hæstv. forsætisráðherra um utanríkismál og hefur mér þótt það frekar leiðinlegt þegar ég sit í salnum og fæ ekki að spjalla við þá þannig að þetta er nýbreytni sem ber að fagna. Ég held að það sé algjörlega til fyrirmyndar að spyrja ráðherra um eigin málaflokka en ekki aðra ráðherra.

Nú fer um Viðreisn í bakherbergjum, allt í góðu með það, en varðandi þetta mál stöndum við frammi fyrir því að það er algjör samstaða um hvernig við vinnum það. Við höfum unnið þetta mál þannig að við höfum tekið alvarlega alla gagnrýni sem komið hefur fram og alla jafna er það ekki frétt þó að það muni einhverjum dögum til eða frá hvenær mál koma fram. Þetta endurspeglar samt sem áður aðeins hvernig stóra umræðan um EES-samninginn hefur verið og er að þróast. Það er mjög mikilvægt að bregðast þar til varnar. Umræðan hefur farið nokkuð út og suður. Hún snýst ekki bara um þriðja orkupakkann, hún snýst um EES-samninginn.

Hv. þingmaður vísaði til Noregs. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér hafa verið útsendarar norska Miðflokksins sem hafa það að skilgreindu markmiði að koma okkur út úr EES og hafa reynt að tala það niður í Noregi mjög lengi. Við þekkjum það á Íslandi, við erum líka með andstæðinga, ef við getum sagt sem svo, og þannig er það líka í Noregi, sem grafið hafa undan EES-samningnum, sem eru ESB-sinnar.

Ég lendi þess vegna í því þegar ég ræði það sem skiptir máli, því að við þurfum að ræða þetta við almenning, við þing og þjóð, að það er t.d. uppi allra handa misskilningur um EES-samninginn og svo sannarlega er mikil umræða um þriðja orkupakkann sem tengist orkupakkanum ekki neitt þó að það sé alveg skýrt af okkar hálfu að við skoðum alla málefnalega gagnrýni og könnum hvort þarna sé eitthvað sem beri að varast.

Þegar ég segi: Ég tek bara þann tíma sem ég þarf til þess er það vegna þess að við munum taka þann tíma sem þarf til þess. Sumt af þessari gagnrýni er mjög alvarlegt. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram ef þarna er um misskilning að ræða eða þá að við þurfum að gera einhverja hluti til að koma í veg fyrir að það sem menn hafa áhyggjur af geti komið fram.

Ég held að það sé skynsamlegt að vinna það mál mjög vel.