149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:23]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er vert að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það er alveg greinilegt á orðum hæstv. félags- og barnamálaráðherra að stefna núverandi ríkisstjórnar er skýr þegar kemur að málefnum barna og það er vel.

Ég hef lagt áherslu á það, þegar við ræðum almennt um efnahagsmál og um skattamál, að við horfum á fjölskylduna sem einingu. Sterk fjölskylda er undirstaða þess að börnum farnist vel í íslensku samfélagi. Þess vegna skiptir það máli þegar við ræðum um skattamál, samgöngumál, menntamál o.s.frv. að við hugum að því hvaða áhrif það hefur á fjölskylduna, grunneiningu samfélagsins. Ef sú grunneining, fjölskyldan, er veikburða er staða barna veik. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn hafi það í huga.

Það er því gleðilegt að efnahagsleg staða heimila er sterkari nú en a.m.k. síðustu 10–15 ár. Skuldastaða er betri. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru skuldir hér lægri en á öðrum Norðurlöndum. Eiginfjárstaða heimilanna er mun betri en á öðrum Norðurlöndum og það er einn af hornsteinum þess að við getum staðið vörð um fjölskylduna og þar með börnin.

Ég vil líka vekja athygli þingheims á því að fyrir liggur frumvarp, sem er nú til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd, um að styrkja frjáls félagasamtök, félög til almannaheilla, til að takast á við stór verkefni í uppbyggingu á aðstöðu, m.a. íþróttafélög og önnur góðgerðarfélög, og að þau njóti ákveðinna skattalegra ívilnana, endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

Ég vonast til þess að þingheimur taki höndum saman við að afgreiða það mál með einum eða öðrum hætti (Forseti hringir.) þannig að við getum stutt dyggilega við bakið á félögum til almannaheilla, (Forseti hringir.) ekki síst þeim sem sinna æskulýðsstarfi.