149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:29]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Herra forseti. Þó að ég trúi því að verkefni varðandi fátækt barna hvíli fyrst og fremst hjá ríkisvaldinu megum við ekki gleyma því hversu stór hluti er á ábyrgð sveitarfélaga. Álögur sveitarfélaga geta haft mikil áhrif á tekjulitlar fjölskyldur. Þar erum við t.d. að ræða leikskólagjöld, mataráskrift í skóla, kostnað við tómstundir og jafnvel samgöngur.

Reyndar hefur minn flokkur, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, víða um land í sveitarstjórnum lagt til að lækka þennan kostnað, t.d. með ókeypis leikskóla og ókeypis mataráskrift í skólum. Það er alveg ótrúlega dýrt fyrir börn á Íslandi að stunda íþróttir og við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir börn, ekki síst börn sem búa við bágan fjárhag, að tilheyra hópnum. Undanfarið höfum við heyrt fullorðið fólk lýsa því hvernig var að vera fátækt sem barn, hversu mikil útskúfunin var og hvernig það hylmdi yfir ástandið. Ég tala nú ekki um hvað það er dýrt að stunda tónlistarnám á Íslandi. Það er eins og það sé bara fyrir útvalda efri stétt. Því þurfum við líka að breyta.

Þarna þurfa sveitarfélögin að koma að.

Félagsleg útskúfun er kannski eitt það alvarlegasta við fátækt barna, að þau verða út undan. Við missum jafnvel hæfileikafólk strax í barnæsku af því að það verður út undan vegna fátæktar.

Sumir tala um að lengra fæðingarorlof gæti kannski hjálpað þarna til. Ég er ekkert endilega viss um það. Sumir segja að það myndi draga úr atvinnuþátttöku kvenna. En við vitum samt að það eru einstæðir foreldrar og öryrkjar sem búa við verstan fjárhag og þurfa mestan stuðning. Mér sýnast tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum einmitt taka mið af því að lágtekjuhóparnir beri meira úr býtum.