149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur: Börnin okkar eru framtíð okkar. Þetta eru mestu verðmæti samfélagsins. Líkamleg og andleg heilsa barna á alltaf að vera í forgangi. Hún má aldrei líða fyrir skort á fjármagni, en sú er raunin í dag og hefur verið lengi.

Ný skýrsla sem unnin var fyrir Velferðarvaktina, um lífskjör og fátækt barna á Íslandi árin 2004–2016, er hreinlega áfellisdómur yfir stefnu stjórnvalda sem hefur ráðið hér ríkjum síðastliðin ár. Skýrsluhöfundur telur að ekkert bendi til þess í aðgerðum ríkisstjórnar í kjölfar efnahagshrunsins að sérstök áhersla hafi verið lögð á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að reynt hafi verið að bæta lífskjör barna þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast.

Einfaldasta leiðin til að bæta lífskjör þeirra barna sem standa fjárhagslega verst í þjóðfélaginu er að bæta kjör öryrkja og einstæðra foreldra. Þannig styrkjum við börn þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra.

Forseti. Sú ákvörðun að leyfa fátækt að viðgangast er mannanna verk. Þetta eru ákvarðanir sem við tökum hér í þessu húsi.

Á morgun byrja verkföll. Þessi verkföll eru afleiðing þess að stjórnvöld hafa ákveðið að hlusta nákvæmlega ekkert á sjálfsagðar kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Kjarabaráttan snýst nefnilega ekki bara um kaup og kjör heldur um framtíð barnanna okkar.

Það er mögulega dálítið upplýsandi, forseti, að áðan hélt hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, ræðu um fátækt barna og náði að skauta algjörlega fram hjá fátækt barna í ræðu sinni. Hann minntist ekkert á hana. Það er kannski lýsandi dæmi um þá stefnu sem við höfum þurft að þola í allt of langan tíma.