149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessarar umræðu fyrir að færa hana inn í sali Alþingis. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða og það er mjög mikilvægt þegar við horfum til efnahagslegrar stöðu foreldra og fátækra barna að samfélagið geri allt sem í þess valdi stendur til að tryggja að börn sem alast upp í fátækt búi eftir sem áður við jöfn tækifæri í samfélagi okkar. Þar er að mörgu að huga.

Fæðingarorlofið er mikilvægur og brýnn þáttur. Við ættum að byrja strax á byrjuninni og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og brúa bilið með því að tryggja dagvistun á viðráðanlegu verði strax frá 12 mánaða aldri þegar fæðingarorlofi lýkur. Við verðum að endurskoða barnabótakerfið og samspil þess við önnur stuðningskerfi ríkisins og tekjuskerðingar til að tryggja að barnabætur komi fátækustu fjölskyldunum til góða.

Félagsleg þátttaka fátækra barna er líka sjálfstætt viðfangsefni eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni. Þátttaka í tómstundum er gríðarlega kostnaðarsöm, er óyfirstíganlegur kostnaður fyrir fátækustu fjölskyldurnar, og við verðum að endurskoða kostnaðinn við þátttöku í íþróttastarfi, tónlistarskóla, eins og hér hefur verið nefnt, og beina íþrótta- eða tómstundastyrkjum sem sveitarfélögin veita í auknum mæli meira að fátækustu fjölskyldunum eða tryggja með einhverjum hætti gjaldfrelsi þar. Þar er auðvitað líka mjög mikilvægt að hafa börn innflytjenda í huga sem búa oft við mjög þrönga stöðu. Það er sérstaklega mikilvægt að þau hafi jöfn tækifæri til þátttöku í tómstundastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna geðheilbrigðismálin, þ.e. að tryggja aukið gjaldfrelsi í geðheilbrigðisþjónustu og tímanlegar greiningar innan skólakerfisins. Það er algjörlega ólíðandi hversu langur tími (Forseti hringir.) líður þar til börn fá tilhlýðilegan stuðning í námi í núverandi fyrirkomulagi.