149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir frumkvæðið að þessari umræðu og hæstv. félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir svörin. Umræðan og skýrslan sem við ræðum einkum um eru mikilvæg innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir í málefnum barna, m.a. þá vinnu sem nú er unnin í nefnd allra þingflokka þar sem ég og hv. málshefjandi erum fulltrúar, ásamt fleirum sem taka þátt í umræðunni í dag. Skýrslan verður einmitt til umfjöllunar á fundi nefndarinnar á morgun. Gefst þá betra tækifæri til að rýna hana.

Skýrslan segir okkur að börn einstæðra foreldra og öryrkja búi við lökust lífskjör á Íslandi, þó að lífskjör barna á Íslandi séu á heildina litið góð, sem betur fer, í samanburði við flest önnur Evrópulönd. En það er óviðunandi að einhver börn búi við fátækt hér og við eigum að setja það í algjöran forgang að bæta lífskjör barna fram yfir alla aðra hópa.

Í skýrslunni er tillögum eða leiðum til úrbóta skipt í þrennt; tekjur, fjölskylda, laun, og tilfærslukerfi hins opinbera til að bæta lífskjör og draga úr fátækt og að síðustu opinber þjónusta sem getur aukið jöfnuð.

Ég vil stoppa fyrst aðeins við leiðina með launin. Þar er lykilatriði að lægstu launin hækki og að hærri hluti grunnlaunanna fáist fyrir dagvinnutíma því að það er tíminn sem einstæðir foreldrar geta aflað tekna.

Hins vegar langar mig að stoppa við fæðingarorlofið. Við ræðum oft um lengingu þess og hámarksgreiðslur, en gólfið, lágmarksgreiðslurnar, er það (Forseti hringir.) sem setur suma foreldra, unga foreldra, í mjög erfiða stöðu strax á fyrstu mánuðum þess tíma sem þau eru foreldrar.