149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:40]
Horfa

Valgerður Sveinsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þarfa og góða umræðu um efnahagslega stöðu barna á Íslandi. Eins vil ég þakka hæstv. ráðherra og öðrum sem hér hafa talað og hlýtt á. Mig langar samt að nota tækifærið úr þessum ræðustól til að enduróma ákall þeirra barna og ungmenna sem stóðu hér fyrir utan síðasta föstudag og hvöttu stjórnvöld til aðgerða í loftslagsmálum. Gríðarleg vakning er meðal ungs fólks í heiminum í dag um þá ógn sem yfir okkur vofir ef við drögum ekki úr mengun og aukum bindingu kolefnis. Þessar raddir þarf að hlusta á. Lítið þýðir að ráðast á eigendur einkabílsins og skattleggja þá undir drep meðan stærstu mengunarvaldarnir, iðnaður, flugvélar og skip, knýja vélar sínar með óbreyttum hætti. Þar að auki verðum við að binda kolefni, ekki bara skattleggja losun þess. Við þurfum að ýta undir skógrækt, innlenda framleiðslu og landbúnað þannig að Íslendingar kjósi heilnæmar innlendar vörur með lágmarkskolefnisspori. Allir geta gert eitthvað og þeir sem stjórna landinu þurfa að gera meira. Það er á okkar ábyrgð að skila þessari jörð í betra ástandi en nú er til þeirra sem á eftir okkur koma.