149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:44]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ekkert er okkur dýrmætara en börnin. Það hefur komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað í dag. Í börnunum er fólgin framtíðin. Við eigum að bera þau á höndum okkar, gæta að hag þeirra og velferð í hvívetna, sýna ábyrgð og forsjálni. Hvernig stöndum við okkur? Gerum við þetta? Því miður er allur gangur á því.

Virðulegur forseti. Kornabarnið verður fyrr en varir að einstaklingi með skoðanir, unglingi í mótun og síðan fullþroska. Lítil efni og jafnvel fátækt er veruleiki þúsunda íslenskra barna. Í tíu barna hópi verður sirka eitt barn út undan af þessum ástæðum. Niðurstöður rannsókna benda til að börn sem búa við fátækt taki minni þátt í tómstundum og þau búa oft við þröngan og ófullnægjandi húsakost. Þá er einnig hætta á að fátækt hafi áhrif á tengsl barna við fjölskyldur sínar og jafningja. Börn sem alast upp við fátækt hafa síðar á lífsleiðinni lýst skömm, einelti, einangrun og áföllum sem fylgdu þessu hlutskipti.

Fátæk börn upplifa auðvitað á sinn hátt áföll og kvíða vegna streitu sem gjarnan skapast á heimilinu milli foreldra og að börnin kenni sér jafnvel um ástandið á heimilinu. Þetta kann að hafa áhrif á persónuleika og viðhorf einstaklinganna fyrir lífstíð.

Til eru þeir sem láta sér þetta í léttu rúmi liggja, þetta hafi ekki slæm áhrif á börnin, herði þau. Til eru þeir sem segja að af misjöfnu þrífist börnin best.

Nei, hér þurfum við að tala af alvöru. Við getum gert miklu betur. Það er samfélagslegt verkefni að tryggja aðstæður allra barna. Við höfum hér á landi skapað umgjörð sem er ekki vinsamleg barnafjölskyldum. Við skulum byrja á fæðingarorlofi sem er langtum lakara en í nágrannalöndunum. Það á sömuleiðis við um húsnæðisstuðning og veigamikill þáttur er barnabætur en það stuðningsúrræði hefur markvisst verið eyðilagt. (Forseti hringir.) Allt eru þetta jöfnunartæki sem hin pólitísku öfl í landinu hafa á valdi sínu og við vitum hvaða öfl ráða. Verkin tala sínu máli.