149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu og kannski ekki síst fyrir að nota hana til að vekja athygli á skýrslunni um lífskjör og fátækt barna. Það skiptir svo miklu máli að við byggjum umræðu um þessi mál á góðum upplýsingum. Ég verð að segja að það var sláandi að heyra að ekki bara að tíunda hvert barn á Íslandi liði skort heldur kannski sérstaklega að börn hefðu komið verr út úr hruninu en meðal-Íslendingurinn, sem sýnir að við höfum svo sannarlega ekki staðið okkur í að standa vörð um þennan viðkvæma og mikilvæga þjóðfélagshóp.

Í dag hefur oft verið nefnt að börn eru, ef maður má kalla þau málaflokk, málaflokkur sem rekst dálítið á milli ríkis og sveitarfélaga. Það má alls ekki verða til þess að spilla fyrir framþróun í þessum málum. Þar langar mig sérstaklega að nefna bilið á milli fæðingarorlofs og grunnskóla, sem er stórt verkefni, gríðarlega mikilvægt, þar sem ríki og sveitarfélög þurfa núna að fara að vinna að einhverjum metnaðarfullum aðgerðum til að það verði samfella í umönnun barna á þessum fyrstu mótunarárum.

Svo vil ég koma inn á eitt atriði sem skiptir máli til að fátækt foreldra komi ekki niður á þátttöku barna í samfélagi barna. Hér hafa verið nefndar frístundir, tómstundir og íþróttir sem börn taka þátt í. Þetta er það samfélag sem þau eiga saman og kostnaður má ekki skipta máli þegar kemur að þátttöku í þessu. Þá sjáum við að þau börn geta ekki tekið fullan þátt með jafnöldrum sínum og það hefur slæmar afleiðingar.

Ráðherrann nefndi hér þær hugmyndir sem eru uppi um að allar stærri ákvarðanatökur og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu barna. Þetta er mikilvægt skref og hefði betur (Forseti hringir.) verið stigið í hruninu eins og skýrslan sýnir, en það skiptir miklu máli að vel takist til. Við fengum t.d. samgönguáætlun í haust sem ekki hafði verið rýnd út frá áhrifum á loftslagsmál þrátt fyrir fyrirheit þar um (Forseti hringir.) þannig að ég brýni ráðherrann til dáða í þessu efni.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)