149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið svo sannarlega utan um málaflokkinn með mér ásamt hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Staðan er sú að þrátt fyrir að skýrslan bendi til þess að almennt séð njóti íslensk börn meiri farsældar en gengur og gerist almennt í kringum okkur, eins og einhverjir hv. þingmenn hafa bent á, er það áfram staðreynd að það sem við erum sérstaklega að beina sjónum að hér og nú er sá hópur barna sem býr við lökustu kjörin, sem býr við fátækt og þarf á því að halda að við tökum sérstaklega utan um hann.

Það er líka talað um að þetta sé samvinnuverkefni jafnvel sveitarfélaganna og ríkisstjórnar. Eðli málsins samkvæmt er það náttúrlega rétt en það breytir ekki heldur þeirri staðreynd að með góðum vilja og samstarfi getum við t.d. komið í veg fyrir að nokkurt einasta barn í grunnskóla á Íslandi sé nokkurn tíma svangt, a.m.k. á skólatíma. Við getum líka komið í veg fyrir að þau einangrist og geti ekki tekið þátt í tómstundum og íþróttum.

Eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni eigum við falda fjársjóði úti um allt, fjársjóði í mannauði sem kannski fær aldrei að blómstra og nýtist aldrei í okkar farsæla samfélagi vegna þess að þessi börn eru skilin eftir. Það eru ekki til peningar, hugsið ykkur.

Þetta snýst allt um peninga, virðulegi forseti, það er ekki einungis mögulegt heldur er það skylda okkar að útrýma fátækt barna á Íslandi. Það á ekki að vera í boði ríkisstjórnarinnar að bíða með úrbætur fyrir börnin. Við eigum að útrýma þjóðarskömminni fátækt og við eigum að gera það strax.