149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra, það skiptir mjög miklu máli um fiskeldi að sú atvinnugrein sé sjálfbær og að við stöndum þannig að henni að hún verði sjálfbær, hún skipti máli fyrir samfélagið, skipti máli fyrir efnahag og að umhverfismálin séu öll í lagi. Þetta þarf allt saman að haldast í hendur.

Þegar sjóeldi hófst hér fyrir alvöru lýstu eldismenn því yfir að þeir myndu ávallt láta náttúruna njóta vafans í öllum sínum rekstri. En það hefur ekki gengið eftir.

Í því frumvarpi sem við ræðum hér er lögð mikil áhersla, ef ég skil það og hæstv. ráðherra rétt, á rannsóknir og vöktun lífríkis, að hlutverk Matvælastofnunar verði stórt og einnig Hafrannsóknastofnunar. En þegar verið er að meta hvað þetta eftirlit og þessar rannsóknir muni kosta aukalega er ekki gert ráð fyrir að breyta þurfi fjármálaáætlun fram í tímann vegna þess að nettóáhrifin verði engin fyrir ríkissjóð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða ávinning hann telji að ríkissjóður hafi af þessari atvinnugrein í þeim búningi sem kynntur er í þessu frumvarpi, ef einhvern, fyrir utan kostnað við eftirlit og rannsóknir.