149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við eigum að geyma okkur umræðu um gjaldtöku í fiskeldi til þess tíma þegar frumvarpið kemur fram. Ýmislegt mun endurspeglast í því.

Varðandi vöktunina á lífrænu álaginu sem hv. þingmaður nefndi áðan er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun vakti þetta, að það sé hennar hlutverk, en fyrirtækin greiða sem sagt inn í Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem fjármagnar það starf. Það eru aðrir þættir í frumvarpinu sem gera ráð fyrir því með hvaða hætti fyrirtækin sjálf umgangist þetta verkefni. Þau eiga að skila Matvælastofnun reglulega upplýsingum um ýmsa þætti sem valda álagi á lífríki viðkomandi fjarða.

Ég þekki ekki hvort miklar rannsóknir hafi farið fram á blöndun villtra laxastofna og seiðasleppinga. Það eru uppi ákveðnar kenningar í þessu. Ég man í svipinn eftir tveimur sérfræðingum sem hafa skrifað nokkrar blaðagreinar um þetta. Það er hins vegar full ástæða til að rannsaka þennan þátt (Forseti hringir.) og rannsaka betur villta laxastofninn, ekki eingöngu í ám heldur ekki síður í hafi.