149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Að öllum líkindum verður það í atvinnuveganefnd sem menn fara ofan í skilgreininguna á villta laxastofninum. Það eru væntanlega til dæmi um að ár hafi verið ræktaðar upp með stofnum, ekki úr viðkomandi á heldur annars staðar frá. Þá veltir maður fyrir sér hvort það er skilgreining á villtum laxastofni í viðkomandi á. Einnig þegar menn hafa verið með svokallaða hafbeitarár, hvort það sé þá villtur laxastofn. Þetta finnst mér að þurfi að skýra betur og er ekki skýrt að mínu viti í frumvarpinu og greinargerðinni með því.

Ég þakka ráðherra kærlega fyrir svörin um áhættumatið. Við vitum að slíkt hefur aðeins verið gert einu sinni og þar af leiðandi hef ég ákveðnar efasemdir um að rétt sé að byggja svo sterkt á einni tilraun í frumvarpi, eins og hér er gert, m.a. vegna þess að embættismennirnir, stofnunin, hafa öll völdin. Ráðherra hefur í raun ekkert um það að segja sem kemur frá stofnuninni (Forseti hringir.) þrátt fyrir að þar sé einungis einhvers konar tilraunaverkefni í gangi.