149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. En áfram um mikilvægi þess að um niðurstöðuna ríki samfélagsleg sátt eins og hægt er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Í því samhengi get ég ekki annað en nefnt greiðslur leyfishafa fyrir afnot af aðstöðunni, sem er náttúran í eigu íslenskrar þjóðar.

Við erum að tala um afnotagjöldin, gjöld sem í mínum huga er eðlilegt að væru þess eðlis að mynduðu eitthvert fjármagn sem munaði um og rynnu í innviði og innviðauppbyggingu á þeim svæðum þaðan sem gjaldið kæmi.

Ég hjó eftir því áðan að ráðherra nefndi að það þyrfti að þreifa sig áfram með þessi mál, það er nefnt að einhverju leyti í 19. gr. frumvarpsins. Eins og ég skil ráðherra hins vegar er þar verið að tala um gjaldskyldu fyrst og fremst fyrir þeim skyldum sem ríkisvaldið hefur þar, eftirlit og annað slíkt.

Hann vísar líka í væntanlegt frumvarp (Forseti hringir.) en að mínu viti er mjög mikilvægt að þetta sé — við erum að tala um mál sem menn hafa mismunandi skoðanir á, eins og ráðherra kom inn á. Við erum líka sammála um mikilvægi þess að um þetta ríki sú sátt að þetta verði unnið áfram. Það er einhvern veginn (Forseti hringir.) ekki hægt að taka þennan stóra hluta í ljósi reynslunnar út fyrir — og ég deili ekki alveg þeirri skoðun með hæstv. ráðherra að við (Forseti hringir.) þurfum að þreifa okkur áfram. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að hér þurfi bara að taka af skarið og koma með skýr skilaboð.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir ræðumenn á að halda ræðutíma.)